Aðalmarkmið RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum er að efla og samhæfa jafnréttisrannsóknir og rannsóknir í kvenna, kynja- og jafnréttisfræðum jafnframt því að vinna að og kynna niðurstöður rannsókna. RIKK miðlar þekkingu á sviði kvenna-, kynja- og jafnréttisfræða með því að gangast fyrir námskeiðum, fyrirlestrum, ráðstefnum og útgáfu.
RIKK er ætlað að veita upplýsingar og ráðgjöf um kvenna, kynja- og jafnréttisrannsóknir, hafa samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaraðila og styðja og styrkja nám í kynjafræðum innan og utan Háskóla Íslands. Stofnunin stuðlar jafnframt að þverfaglegri samvinnu fræðigreina.
Í daglegu starfi miðlar RIKK þekkingu um rannsóknir á fræðasviðinu, hvetur til rannsókna og styður fræðimenn við rannsóknir sínar og skipuleggur og býr til grundvöll fyrir rannsóknastarf. Stofnunin tekur þátt í evrópskum og norrænum rannsóknaverkefnum og tengslanetum með fjölbreyttum áherslum. RIKK miðlar niðurstöðum eigin rannsókna og annarra, m.a. með bókaútgáfu, og hefur frá upphafi staðið fyrir reglulegum rabbfundum og fyrirlestrum þar sem fræðimenn kynna rannsóknarverkefni sín. Þessir fundir hafa verið vinsælir og afar vel sóttir.
STJÓRN
Í stjórn RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum sitja 5 fulltrúar í þrjú ár í senn. Núverandi stjórn situr frá 2024-2026. Hér má sjá starfsreglur RIKK
Gunnþórunn Guðmundsdóttir
Prófessor í Íslensku og menningardeild, formaður
Jón Ólafsson
prófessor í Íslensku- og menningardeild og Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, varaformaður
Annadís G. Rúdólfsdóttir
dósent við Deild menntunar og margbreytileika Háskóla Íslands
Þórir Jónsson Hraundal
lektor við Mála- og menningardeild
Sigrún Ólafsdóttir
prófessor í Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands
starfsfólk
Irma Erlingsdóttir
Forstöðumaður
SAGA RIKK
RIKK hefur starfað síðan 1991 og er leiðandi afl í kvenna-, kynja- og jafnréttisrannsóknum á Íslandi. RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum er þverfagleg stofnun. Aðalmarkmið hennar er að efla og samhæfa jafnréttisrannsóknir og rannsóknir í kvenna- og kynja- fræðum jafnframt því að vinna að og kynna niðurstöður rannsókna. RIKK miðlar þekkingu á sviði kvenna, kynja- og jafnréttisfræða með því að gangast fyrir námskeiðum, fyrirlestrum, ráðstefnum og útgáfu. Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum er ætlað að veita upplýsingar og ráðgjöf um kvenna- og kynjarannsóknir, hafa samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaraðila og styðja og styrkja nám í kynjafræðum innan og utan Háskóla Íslands. Samkvæmt nýrri tilhögun stofnana sem áður heyrðu undir háskólaráð, var RIKK flutt yfir á Hugvísindasvið árið 2010, en hún er eftir sem áður sjálfstæð og þverfagleg stofnun og helst hlutverk hennar óbreytt. Stofnunin leggur metnað sinn í að starfa með fræðimönnum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. RIKK hefur margvísleg tengsl út fyrir skólann, jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi, og starfar í því samhengi sem fulltrúi Háskólans í heild.
Saga RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum:
Rannsóknastofnunin á rætur sínar að rekja til áttunda áratugarins þegar fræðikonur víða um heim hófu markvissar rannsóknir í kvennafræðum. Íslenskar fræðikonur létu ekki sitt eftir liggja og þegar upp úr 1980 var farið að bjóða upp á námskeið í t.d. kvennabókmenntum og kvennasögu við Háskóla Íslands. Sumarið 1985 var haldin fyrsta ráðstefnan um íslenskar kvennarannsóknir. Að henni stóð hópur kvenna sem hafði um árabil sinnt rannsóknum á þessu sviði. Í kjölfar ráðstefnunnar var stofnaður Áhugahópur um íslenskar kvennarannsóknir en í honum voru konur innan og utan háskólasamfélagsins. Áhugahópurinn stóð fyrir reglulegum fyrirlestrum um kvennarannsóknir, beitti sér fyrir stofnun rannsóknastofu í kvennafræðum og að komið yrði á fót skipulegu námi í kvennafræðum við Háskóla Íslands. Sem fyrr segir varð stofnun rannsóknastofunnar að veruleika árið 1991 en námsbraut í kynjafræðum var sett á laggirnar fimm árum síðar, haustið 1996. Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum hafði um árabil takmarkaða fjárveitingu og gat af þeim sökum aðeins haft starfsmann í hlutastarfi. Engu að síður tókst stofunni að halda úti þéttri dagskrá á hverjum vetri sem samanstóð af hádegisfyrirlestrum, opinberum fyrirlestrum og málstofum, auk útgáfu rita á sviði kvenna- og kynjafræða.
Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar:
Með samstarfssamningi RIKK og Reykjavíkurborgar árið 2000 varð gjörbreyting á starfsaðstæðum stofunnar því þá fyrst var hægt að ráða forstöðumann í fullt starf. Þann 26. júní 2000 undirrituðu Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri samstarfssamning Háskólans og Reykjavíkurborgar, sem fól í sér að koma á fót stöðu forstöðumanns Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Markmið samningsins er að efla rannsóknir á sviði kvenna, kynja- og jafnréttisfræða innan Háskólans. Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar er ábyrg fyrir framkvæmd samningsins af hálfu Reykjavíkurborgar og RIKK er ábyrg fyrir framkvæmd samningsins.